Saga Yggdrasils

 

Þetta byrjað allt árið 1986

Yggdrasill var stofnað árið 1986 og var tilgangurinn með stofnun félagsins að selja eingöngu lífrænt ræktaðar matvörur og aðrar vörur af bestu fáanlegu gæðum. Félagið hefur öll árin haldið þessu markmiði sínu. Þeir sem stóðu að stofnun félagsins voru hjónin Rúnar Sigurkarlsson og Hildur Guðmundsdóttir ásamt nokkrum bændum sem voru þá að stunda lífræna ræktun. Þessir aðilar höfðu það sameiginlegt að hafa kynnst lífrænni ræktun og lífrænum afurðum í Järna í Svíþjóð og fannst vanta mikið upp á úrval og gæði á slíkum vörum á Íslandi. Einnig var til staðar lítill hópur fólks sem fannst mjög mikilvægt að svona fyrirtæki gæti orðið til og lagði sitt af mörkum til að hjálpa til.

Smásala og heildsala

Starfsemin (sem var þá tvískipt: smásala og heildsala) fór rólega af stað enda ekki svo stór neytendahópur til að byrja með. Lítil geymsla í fjölbýlishúsi dugði fyrstu mánuðina. Í desember 1988 var svo verslunin flutt í miðbæ Reykjavíkur í húsnæði að Kárastíg 1. Þar starfaði verslunin þar til í maí 2005, en þá flutti verslunin í stærra húsnæði á Skólavörðustíg 16. Þann 20. mars stækkaði búðin svo við sig og flutti í mun stærra og glæsilegra húsnæði að Rauðarárstíg 10, við Hlemm. Í maí 2006 flutti heildsalan í 1.050 fm húsnæði sem svo var svo stækkað árið 2012 og er Yggdrasill nú í 1.500 fm húsnæði að Suðurhrauni 12b í Garðabæ. 

Í júní 2010 keypti Auður I Yggdrasil sem sameinaðist heildsölunni Biovörur undir nafni Yggdrasils. Á sama tíma sameinaðist smásalan (verslunin Yggdrasill) Lifandi markaði og var formlega lögð niður í október 2012 þegar Lifandi markaður opnaði nýja og glæsilega verslun í Fákafeni. Lifandi markaður starfrækir nú þrjár verslanir og matsölustaði undir sömu gildum og Yggdrasill, en þau eru HEILBRIGÐI - HEILINDI - HAGSÝNI og leggur Lifandi markaður mikla áherslu á að hafa sem fjölbreyttast úrval lífrænna vara og heilsuvara. 

Nútíðin og framtíðin

Í dag er starfar Yggdrasill sem heildsala og sérhæfir sig í að flytja inn, dreifa og kynna lífrænar vörur af ástríðu. Viðskiptavinir Yggdrasils eru flestar verslanakeðjur, matvöruverslanir og apótek á landinu en einnig veitingastaðir, hótel, ferðamannastaðir og mötuneyti.

Verkefnið okkar er að stuðla að góðri heilsu og vellíðan, auka sjálfbærni og skapa verðmæti. Hvetja til siðrænnar neyslu og sjálfbærrar þróunar og geta skilað jörðinni til komandi kynslóða í betra ástandi en hún er í dag. Yggdrasill dreifir lífrænum vörum frá traustum framleiðendum, ásamt náttúrulegum vörum úr góðum hráefnum, án óæskilegra fyllingar- og aukefna.

Við elskum lífrænt og trúum því að lífrænt sé framtíðin!